Við búum í Reykjavik hundarnir okkar eru fyrst og fremst gæludýr sem búa inni á heimilinu sem fjölslkyldumeðlimir. Við höfum verið með dýrum nánast allt lífið, hundum og köttum. Við eignuðumst whippet tíkina okkar hana Álfadísar Drauma Dagbjörtu (Þoku) fyrir 17 árum síðan, við féllum strax fyrir henni. Þoka er núna íslenskur meistari og  Reykjavik Winner 2013, þá hefur hún einnig verið valin besti whippetinn á deildarsýningu Mjóhundadeildar og hún hefur verið valin besti whippetinn af gagnstæðu kynni á sýningum HRFI. Síðan við eignuðumst Þoku höfum við innflutt hunda frá Írlandi (BOS Winner) Mossbawnhill Glory Bound, frá Svþjóð Springeldens Dolce Ranocchio(BOS Winner) frá Noregi Courtborne Rajesh. Rajesh (Darri) ( Darri var sýndur á nokkrum sýningum í Noregi áður en hann kom til Íslands og var m.a. valinn BOB og BOS hvolpur nokkrum sinnum. Í dag er Darri stigahæsti whippetrakkinn þriðja árið í röð, 2014 og 2015, 2016 ekki nema rétt þriggja ára, hann er bæði íslenskur meistari, alþjóðlegur meistari og Reykjavíkur winner 2014-2015-2016. Eldþoku Lóa sem er úr okkur ræktun og er bara rétt tveggja ára er stigahæsta whippettíkin 2016.  Okkar höfuðáhersla er að rækta heilbrigða hunda með framúrskarandi skapgerð samkvæmt þeim standard sem FCI hefur sett, hunda sem geta náð langt á sýningum og í beituhlaupi. VIð erum aðilar að Hundaræktarfélagi Íslands og FCI. Selma hefur starfað í stjórn Mjóhundadeildar í gegnum árin ,þá hefur Selma  farið á fjölda námskeiða er varða hunda og hundahald.

 

Velkomið að hafa samband: selmaolsen@gmail.com 

Kynni mín af whippet

Það var árið 2005 sem ég sá whippet í fyrsta skipti, þetta var í Reiðhöllinni í Víðidal, ég féll um leið fyrir útlitinu, „þeir voru svo fallegir“ Fljótlega eftir þetta fór ég að spyrjast fyrir og kynna mér tegundina og ekki  minnkaði áhugi minn á whippet eftir að hafa lesið um tegundina.

Það var svo í lok ársins 2007 sem ég frétti af whippetgoti  hjá Kristínu Kristvinsdóttir,  ég heimsótti Kristínu og hitti  Álfadísar Drauma Dagbjörtu. Ég hugsaði mig vel um áður en ég tók þá ákvörðun að taka Dagbjörtu að mér.  Þar sem ég hafði átt hund í mörg ár vissi ég hvað þetta var mikil ákvörðun og hvað var áríðandi að vanda valið vel. Það var fyrst og fremst skapgerðin og eiginleikar hundsins sem mér var umhugað um. Sýningar og annað var algjört aukaatriði í mínum huga þá.

Ég var ekki búin að eiga þessa tík lengi þegar ég sá að þetta var allt önnur tegund af hundi en ég hafði áður kynnst, hún var svo auðveld í öllu, hún hlýddi öllu og var bara svo ótrúlega yndisleg og blíð að það var með eindæmum. Hún var einnig  hljóðlát og hafði ótrúlega aðlögunarhæfileika.

Sjálf fór ég töluvert í göngur á þessum tíma og tíkin var ekki gömul þegar hún byrjaði að fara með mér í göngur, ég  gat strax haft hana lausa því hún bara elti hópinn og var aldrei með neitt vesen. Ég gat sofið með hana hjá mér í tjaldi ofaní svefnpoka, farið með hana á gistihús, farið með hana í siglingar , út að skokka, hjóla, allt gekk eins og í sögu.

Dagbjört (Þoka) varð 7 ára á þessu ári og ekkert hefur breyst, hún er ennþá jafn yndisleg og hún var þegar ég fékk hana.

Ég ásamt Arndísi Hauksdóttir fluttum síðan inn whippet 2009 Mossbawnhill Glory Bound (Eldar) og ekki hefur hann veitt mér minni gleði en Þoka. Það hefur allt gengið jafnvel með hann, Eldar hefur þessa einstöku skapgerð eins og Þoka.  Þetta er sú skapgerð sem whippet á að hafa. Whippet á aldrei  að sýna árásarhneigð, grimmd eða aðra slíka hegðun. Eldar lést af slysförum árið 2012 og var það mikið áfall og mikil sorg. Við höfum flutt inn 2 rakka síðan þá Springeldens Docle Ranocchio og Courtborne Rajesh.

Whippet er hins vegar veiðihundur með mikið veiðieðli og hann veiðir kanínur ef hann kemst í tæri við þær, önnur smádýr á hlaupum geta líka verið í hættu. Ég persónulega hef ekki reynslu af því að mínir hundar hafi farið í kanínur eða önnur smádýr en ég finn vissulega fyrir miklu veiðieðli hjá þeim þegar við erum á kanínuslóðum og hef því forðast þá staði.

Hundarnir okkar umgangast mikið aðra hunda, ekki bara whippeta heldur allar aðrar tegundir af hundum ,smáhunda jafnt sem stóra hunda og hefur það alltaf gengið mjög vel.

Ég fer mest með mina hunda á svæði þar sem ég get sleppt þeim og þeir hlaupið frjálsir, það tekur whippet ekki langan tíma að hlaupa nægju sína.

Mín skoðun er sú að whippet sé einn besti heimilishundur sem hægt er að hugsa sér, hann er ótrúlega nægjusamur, hann verður ekkert háður því að fara í langar göngur daglega svo lengi sem hann fær að hlaupa laus annað slagið.

Þeir eru mjög þægilegir í sambýli vegna þess að þeir eru yfirleitt ekki geltnir. Þeir henta mjög vel með börnum vegna þess að þeir eru svo endalaust ljúfir og elska að fá að kúra með börnum.

Þá er lítil óþrifnaður af whippet vegna þess að hann er svo snögghærður og óhreinindi sem kunna að koma í feldinn eru oftast horfinn áður en heim er komið.